Við erum alltaf að breyta og bæta til þess að finna bestu leiðirnar til að mæta þörfum viðskiptavina Krambúðarinnar. Við viljum setja meiri áherslu á tilboð í Krambúðinni og ætlum við núna að bjóða upp á vikutilboð ásamt helgartilboðunum. Í þessu nýju vikulegu tilboðum munum við bjóða veglegan afslátt og lærri verð á lykilvörum. Með þessu móti getur þú nú gert enn hagkvæmari innkaup í hverri viku og safnað inneign með appinu.
Breyting á föstum afslætti
Samhliða þessum nýju tilboðum munum við hætta með föstu 2% inneignina í Samkaupa appinu frá og með 3. mars. Viðskiptavinir munu nú safna inneign þegar tilboðsvörur eru verslaðar, en slík tilboð verða reglulegri og veglegri, og í boði alla vikuna.
Samkaup bæta við samstarfsaðila í átaki sínu gegn matarsóun. Fyrirtækið hefur veitt mataraðstoð að verðmæti sem nemur 70 milljónum króna það sem af er ári, og stefnir í að gera enn betur fyrir árslok
Samkaup undirrituðu nýlega samning við Lautina, athvarf rekið af Akureyrarbæ fyrir fólk með geðsjúkdóma á Akureyri, með það að markmiði að minnka matarsóun í verslunum sínum og styðja gesti Lautarinnar með matargjöfum. Verkefnið er hluti af markvissu átaki Samkaupa um allt land um mataraðstoð gegn matarsóun.
Markmið samkomulagsins er að vinna í sameiningu að því að minnka matarsóun og förgun matvæla og stuðla að samfélagslegri ábyrgð í nærsamfélagi verslana. Verkefnið snýr að því að Samkaup mun gefa Lautinni matvæli sem annars yrði fargað en er þó enn hægt að nýta í matseld. Lautin mun annað hvort gefa skjólstæðingum sínum þennan mat eða nýta á annan hátt innan starfsemi sinnar.
„Við erum afar ánægð með árangurinn í átakinu gegn matarsóun og hversu vel hefur gengið að bjóða fleirum með í vegferðina. Við höfum átt í samtali við Ólaf og Anítu hjá Lautinni síðustu mánuði og það gleður okkur hversu vel okkur var tekið og að hafa nú fengið þau með okkur í að sporna gegn matarsóun í verslunum okkar á Akureyri. Það er hagur okkar allra sem samfélags að draga sem mest úr matarsóun, en þá er einnig mikilvægt fyrir okkur hjá Samkaupum að að láta gott af okkur leiða í nærsamfélaginu og styrkja þau sem eru að vinna að bættri velferð fólks. Það er ánægjulegt að geta gert hvort tveggja í einu,“ segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum.
Lautin er athvarf fyrir fólk með geðrænar áskoranir, staðsett í Brekkugötu 34 á Akureyri. Markmið Lautarinnar er að draga úr félagslegri einangrun í samfélaginu og skapa umhverfi þar sem gagnkvæm virðing og traust ríkir á milli gesta og starfsmanna. Alla virka daga er boðið upp á heitan mat í hádeginu og kaffi allan daginn. Lautin er opin virka daga kl. 9 til 15 og eru allir velkomnir.
„Við leggjum mikla áherslu á að það sé notalegt andrúmsloft í Lautinni, við spilum mikið, prjónum, heklum, förum í göngutúra og spjöllum saman. Það er okkar von að með þessu flotta samstarfi við Samkaup getum við lagt enn meira til samfélagsins og komið til móts við þá sem þurfa á því að halda, ekki bara með opnum örmum og góðum félagsskap, heldur einnig með matargjöfum,“ segja fulltrúar Lautarinnar, Ólafur Torfason og Aníta Einarsdóttir
Markvisst átak gegn matarsóun um allt land
Verkefnið er liður í umfangsmikilli samfélagsstefnu Samkaupa, eiganda og rekstraraðila verslana Nettó, Kjörbúða og Krambúða, sem hefur skýr markmið um mataraðstoð gegn matarsóun. Mikil áhersla er lögð á að samfélagsábyrgð sé samþætt allri starfsemi fyrirtækisins og hafa Samkaup til að mynda gefið mat og aðrar nauðsynjavörur fyrir 70 milljónir kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins 2024. Samkaup reka yfir 60 verslanir víðs vegar um landið og rík áhersla er lögð á að styðja við nærsamfélagið á hverjum stað með fjölbreyttum hætti.
Ásamt nýjum samningi við Lautina hafa Samkaup starfað um árabil með Hjálpræðishernum í Reykjavík, Reykjanesbæ og á Akureyri, og með Vesturafli á Ísafirði. Þá gefa verslanir Samkaupa einnig matvörur í frískápa á höfuðborgarsvæðinu og á Húsvík. Þetta átak hefur séð hundruðum einstaklinga fyrir heitri máltíð eða að þeir geti sótt mat- og nauðsynjavöru til að taka með sér heim alla virka daga.
Verslanakeðjan Krambúðin hefur hafið samstarf við heimsendingarþjónustuna Wolt um að senda matvörur og snarl heim að dyrum. Heimsendingarþjónustan hefur verið brautryðjandi í heimsendingu á Íslandi en hefur samstarfið við Krambúðina aukið enn fremur þá þjónustu sem Wolt býður upp á. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu frá Wolt og Krambúðinni.
Fyrsta sendingin í maí
„Fyrsta verslun Krambúðarinnar hóf sendingar með Wolt í maí á þessu ári, en frá því í júlí hafa allar 15 verslanirnar á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, í Reykjanesbæ og á Selfossi hafið heimsendingar. Krambúðin býður upp á 2.600 til 2.900 mismunandi vörur en lögð var áhersla á að bjóða upp á fjölbreytt úrval sem viðskiptavinir gætu þurft í heimsendingu,“ segir Jóhann Már Helgason forstöðumaður viðskiptasviðs Wolt á Íslandi.
„Það er frábært tækifæri fyrir okkur að vinna með Krambúðinni. Við erum spennt að þróa samstarfið með þeim til að auka þjónustuframboðið á Íslandi. Krambúðin er traust vörumerki með sterka nærveru í samfélaginu og fjölbreytt vöruúrval sem mun auka verulega þægindin sem við bjóðum viðskiptavinum okkar upp á,“ segir Jóhann Már jafnframt.
Dagleg innkaup hraðvirkari fyrir neytendur
Í fréttatilkynningunni kemur fram að ólíkt öðrum matvöruverslunum á netinu eru pantanir Krambúðarinnar afgreiddar frá verslun á staðnum. Þannig er afhendingartíminn styttur enn frekar og viðskiptavinir þurfa vanalega ekki að bíða meira en 30 mínútur eftir sendingunni. Samstarfinu er ætlað að gera dagleg innkaup hraðvirkari og auðveldari fyrir neytendur og gera þeim kleift að nálgast sömu hágæða vörur sem til eru í verslun án þess að þurfa að fara út fyrir hússins dyr. Í gegnum Wolt appið geta viðskiptavinir skoðað fjölbreytt vöruúrval Krambúðarinnar, lagt inn pöntun og fengið hana afhenta á um 30 mínútum, eftir staðsetningu.
„Þetta samstarf hefur gengið mjög vel og í raun farið fram úr okkar björtustu vonum. Við erum stolt af því að vera fyrsta þægindaverslunin á Íslandi sem býður upp á þessa þjónustu í gegnum Wolt og það er greinilegt að markaðurinn hefur beðið eftir þessu. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs með Wolt og að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á enn meiri þægindi í framtíðinni,“ segir Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Krambúðarinnar og Kjörbúðarinnar.
Orkudrykkur vinsælasta staka varan
Samkvæmt tölum fyrstu mánaðanna er hvíti Monster Energy Ultra orkudrykkurinn vinsælasta staka varan og drykkir og snakk meðal vinsælustu vöruflokkanna, ásamt kjötbollum frá 1944.
Miðaeigandi í Lottói kvöldsins vann rúmar 8,9 milljónir í kvöld, en hann var sá eini sem hlaut fyrsta vinning. Miðann keypti hann í Krambúðinni á Hólmavík.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Lottó.
„Einn miðahafi var með bónusvinninginn sem færir honum rúmar 409 þúsund krónur. Miðinn var keyptur á Olís á Selfossi.
Þá voru sjö vinningshafar með 2. vinning í Jóker kvöldsins sem veitir þeim öllum 100 þúsund krónur. Þrír miðar voru keyptir í Lottó appinu, þrír eru í áskrift og einn var keyptur í Vídeómarkaðinum í Kópavogi,“ segir í tilkynningu.
Krambúðin efnir til þjóðaratkvæðis um besta nammið. Leikurinn felur í sér kosningu á besta namminu í fjórum algengum aðstæðum í íslenskri nammi-menningu. Það eru sakbitna sælan, sumarbústaðurinn, stefnumótið og bragðarefurinn.
„Við höfum auðvitað öll miklar skoðanir á namminu okkar, en erum ekkert endilega að fá okkur sama nammið eftir því hvað við erum að gera. Við höfum því opnað kosningu þar sem við spyrjum þjóðina hvert uppáhalds nammið þeirra er, eftir ólíkum aðstæðum. Dálítið eins og í „Fantasy football“ þá leggjum við upp fjórar stöður og þjóðin fær tækifæri að stilla upp besta liðinu,“ segir Ásdís Ragna Valdimarsdóttir, markaðstjóri Krambúðarinnar.
Nammibarnum var lokað í heimsfaraldri Covid en hefur nú verið opnaður aftur.Aðsend
Opinber kosning á besta namminu í hverri stöðu fer fram núna á vef Krambúðarinnar og verða niðurstöður kynntar þann 8. september.
Í tilkynningu frá Krambúðinni um keppnina segir einnig að frá því að verslunin opnaði nammibar í verslunum aftur hafi þau selt 38 tonn af sælgæti úr nammibarnum.
Ný norræn næringarviðmið voru gefin út nýlega. Í þeim er mælt með því að takmarka neyslu matvara sem innihalda mikið af sykri, salti og mettaðri fitu eins og sælgæti, kökum og snakki.
Selfyssingar eru mestu nammigrísir landsins ef marka má sölutölur Krambúðarinnar í nýjum nammibörum verslananna og eru Íslendingar í heildina nokkuð sælgætisóðir þegar á heildina er litið. Nammibarir nutu lítilla vinsælda í Covid en nú hefur eftirspurnin aukist á ný. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Krambúðinni.
Krambúðin fjölgar nammibörum
Verslanir Krambúða hafa selt rúmlega 26,5 tonn af nammi úr nammibarnum það sem af er ári. Viðskiptavinir hafa tekið vel í endurkomu hins gamalkunna nammibars, sem margir hverjir hurfu smátt og smátt af sjónarsviði Íslendinga þegar sóttvarnaraðgerðir voru hertar í kjölfar heimsfaraldursins. Frá upphafi árs hafa bæst við nammibarir í Krambúðirnar á Selfossi, Húsavík, Akranesi, Njarðvík, Flúðum, Kársnes, Búðardal, Skólavörðustíg og Laugarvatni. En áður fyrr voru einungis nammibarir á Borgarbraut, Búðarkór, HR, Keflavík og Garðabæ.
„Við fundum fyrir miklum áhuga frá okkar viðskiptavinum að fá aftur nammibari í verslanir, og höfum fengið gríðarlega góðar móttökur. Þegar við opnuðum nammibar í Krambúðinni á Selfossi seldist til að mynda 600 kíló af nammi á fyrstu þrem dögunum, sem var langt fram úr okkar væntingum. Eftir að við byrjuðum þessa vegferð að opna nammibari á ný höfum við fengið fjölda áskorana að opna fleiri og stefnum við á að hafa nammibari í öllum 21 verslunum okkar,“ segir Ásdís Ragna Valdimarsdóttir, markaðsstjóri Krambúðarinnar.
Íslendingar nammióðir miðað við söluaukninguna
Nammibarir eru vinsælir meðal Íslendinga, en mörgum hverjum finnst gott að velja sér gott bland í poka á tyllidögum. „Við erum að sjá mikla aukningu í nammikaupum viðskiptavina okkar, en það sem af er ári þá hefur nammisala í nammibörum aukist um heil 522% hjá okkur. Það er okkur ljóst að Íslendingar eru alveg nammióðir, og þá sérstaklega Selfyssingar, en Krambúðin þar í bæ selur langmest af nammi,“ segir Ásdís.
Þess ber að geta að 26,5 tonn er ansi mikið magn af sælgæti. Til samanburðar þá vegur einn fíll um 6 tonn. Má því áætla að viðskiptavinir Krambúðarinnar hafi trítlað út með nammipoka sem vega samtals um 4 og hálfan fíl á árinu. Hver nammipoki sem viðskiptavinir kaupa vegur þó bara um 300 gr að meðaltali, og bætir Ásdís við að það sé 50% afsláttur allar helgar þ.e. föstudaga, laugardaga og sunnudaga.
Það er ekki oft sem fjögur systkin vinna hjá sama fyrirtækinu en þannig er það hjá Radmilu Medic, 36 ára verslunarstjóra Krambúðarinnar við Tjarnabraut í Innri-Njarðvík, og systkinum hennar. Þau eru sex systkinin og fjögur þeirra starfa hjá Samkaupum. Tvær systur Radmilu vinna með henni í Krambúðinni við Tjarnabraut og bróðir þeirra er verslunarstjóri Nettó í Norðurbænum í Hafnarfirði. Vel gert!
Radmila er frá Króatíu og kom með fjölskyldu sinni til Íslands á vegum Rauða krossins sem flóttamaður árið 2000 og hefur unnið hjá Samkaupum frá 2006 eða í sautján ár – þar af frá árinu 2018 sem verslunarstjóri í Tjarnagötu.
„Ég vann áður í flugeldhúsinu á Keflavíkurflugvelli og það var ágætt og mikið að gera en systir mín vann hjá Samkaupum og sagðist ánægð þannig að ég ákvað að prófa – og hef ekki farið síðan,“ segir hún hlæjandi.
Hún segir að sumarið hafi gengið vel í Krambúðinni og það sé aukning frá því í fyrrasumar. Erlendir ferðamenn séu ekki mikið á ferðinni eftir að hótelið í hverfinu hafi verið leigt til ríkisins og lokað sem almennu hóteli.
„Við finnum fyrir miklum velvilja hjá viðskiptavinum okkar sem langflestir eru héðan úr hverfinu. Við bjóðum upp á fjölbreytt vöruval þótt búðin sé ekki mjög stór – og það eru alltaf einhver tilboð hjá okkur.“
Fjölskyldan með Rauða krossinum sem flóttamenn
Þegar fjölskylda Radmilu kom til Íslands á vegum Rauða krossins sem flóttamenn árið 2000 fluttist hún til Siglufjarðar. Radmila var þá þrettán ára og elst í systkinahópnum. Hún segir að það hafi verið fínt að búa á Siglufirði og á þessum tíma hafi þau nánast verið einu erlendu börnin í bænum.
„Siglfirðingar tóku okkur vel og við féllum vel inn í mannlífið en eftir fimm ár ákváðu mamma og pabbi að flytja til Keflavíkur þegar systur mínar voru á leið í framhaldsskóla. Þeim fannst það auðveldara vegna samgangna en Héðinsfjarðargöngin voru ekki komin á þessum tíma. Siglufjörður mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu.“
Talar áberandi góða íslensku
Það er áberandi hvað Radmila talar góða íslensku en hvernig fór hún að? „Mér fannst sjálfsagt að læra hana og hugsaði sem svo að ég gæti ekki búið á Íslandi nema læra tungumálið. Ég fékk mína fyrstu kennslu í skólanum á Siglufirði og reyndi strax að lesa mikið á íslensku fyrir utan skólabækurnar. Þetta kom smám saman. Ég var líka frá upphafi óhrædd við að prófa að tala íslensku við krakkana á Siglufirði. Það hafði mikið að segja – sem og hvað ég hef umgengist mikið Íslendinga frá því við komum til landsins.“
Í verslun skiptir öllu að kunna vel við fólk
Verslunarstarfið hentar Radmilu vel. Hún segir að það sé spennandi að stilla upp ferskri og góðri búð með fullt af tilboðum – og þar sem allir reyna að gera sitt besta á hverjum degi. „Það er mjög gefandi að vinna í verslun og þjónusta viðskiptavini. Það skiptir öllu að líka við fólk, kunna á fólk og hafa ánægju af samskiptum við það.“
Hún bætir því við að hún hafi verið ánægð þegar hún sá eitt sinn í viðtali við forráðamann í bandarísku stórfyrirtæki að eitt af skilyrðunum fyrir því að fá vinnu þar væri að kunna vel við fólk. „Ein spurningin var einfaldlega hvort viðkomandi ætti auðvelt með að umgangast aðra og líkaði vel við fólk: „Do you like people?“ Það er mjög mikilvægt í þjónustustörfum að vilja vinna með fólki og kunna mannasiði. Það er ekki kennt í skólum.“
Skemmtilegra að horfa á málningu þorna
Radmila segir að helsta áhugamál sitt sé lestur og gönguferðir úti í náttúrunni – fyrir utan að verja tíma með fjölskyldunni. „Ísland er mjög fallegt land með fjölbreytta og stórbrotna náttúru. Það þarf ekki að fara langt til að njóta útiverunnar og finna kyrrðina.“
Þegar hún er spurð hvort hún stundi íþróttir eða fylgist með þeim svarar hún að bragði með glettni: „Gönguferðirnar eru mín íþrótt en áhugi minn á keppnisíþróttum er það lítill að frekar vildi ég horfa á málningu þorna á vegg en glápa á fótboltaleik í sjónvarpi,“ segir hún og skellir upp úr.
Kann vel við veðrið á Íslandi
Fjölskyldan er frá borginni Zadar í Króatíu og þar er sól og gott veður megnið af árinu. Um það hvort hún sakni veðurfarsins í Króatíu segir hún að svo sé ekki. „Ég kýs frekar að vera í fersku, tæru og kaldara loftslagi. Það er tiltölulega milt veðurfar á Íslandi yfirleitt og ég vil frekar vera í slíku loftslagi en steikjandi hita stærstan hluta ársins. Pabbi er þannig líka. Þegar við heyrum af hitabylgjum erlendis og „skrítnu veðri“ held ég að við Íslendingar séum í toppmálum en jújú, eins og öllum öðrum Íslendingum þá leiðist manni svonefnt skítaveður; hávaðarok og rigning – en almennt getum við Íslendingar verið sátt við veðrið.“
Hún segist finna sig vel á Íslandi. Maðurinn hennar sé Pólverji sem hafi búið á Íslandi um árabil og heiti Grzegorz. „Okkur líkar vel hér. Ég er orðin Íslendingur; mér finnst það. Ég finn mig á Íslandi og kýs það líf – eins og við þekkjum það – sem er hér. Ég er ekki að fara neitt,“ segir Radmila Medic, verslunarstjóri Krambúðarinnar í Innri-Njarðvík.
— segir Sigurður Ragnarsson verslunarstjóri Krambúðarinnar við Hjarðarhaga —
„Ég kynntist ekki þessari ísbúð en það er gaman að rifja upp sögur af henni því ennþá koma einstaka manneskjur hér inn og spyrja um gömlu Dairy Queen-ísbúðina,“ segir Sigurður Ragnarsson, 39 ára verslunarstjóri Krambúðarinnar við Hjarðarhaga. „En það er alltaf hægt að fá ís hjá okkur,“ bætir hann við brosandi.
Það hefur verið sterkur verslunarkjarni við Hjarðarhagann í áratugi. Ísbúðin sem um er rætt er gamla Dairy Queen-ísbúðin sem var um árabil við hliðina á gömlu Hagabúðinni þar sem Krambúðin er núna. Dairy Queen í Aðalstrætinu var flaggskipið en Hjarðarhaginn átti sína kúnna og var hluti af rúntinum. Það eru áratugir síðan.
Í verslunarstörfum frá 16 ára aldri
Sigurður hefur verið með annan fótinn í verslunarstörfum frá 16 ára aldri og verið verslunarstjóri í Krambúðinni við Hjarðarhaga í um fimm ár. Hann hóf ferilinn í 10-11 við Staðarbergið í Hafnarfirði og fór á milli búða. Árið 2018 urðu vistaskipti þegar hann hóf störf hjá Samkaupum sem verslunarstjóri Krambúðarinnar við Hjarðarhaga.
Hann ólst upp í Vestmannaeyjum til sex ára aldurs og lítur enn á sig sem Eyjapeyja sem heldur með ÍBV. Hann á skyldmenni í Eyjum, amma hans býr þar sem og systkini móður hans – nema eitt þeirra sem býr í Danmörku.
Ólst upp í Eyjum – en Melaskólinn fyrsti skólinn
Þrátt fyrir Eyjatengslin er Sigurður á vissan hátt kominn á bernskuslóðir sínar í Vesturbænum. „Þegar pabbi hóf nám í háskólanum fluttumst við hingað og ég var í Melaskólanum í fjögur ár. Eftir það fluttum við til Hafnarfjarðar þar sem ég bjó öll unglingsárin og gott betur. Hér í Krambúðinni við Hjarðarhaga er ég því á slóðum æskuminninganna og fer fram hjá Melaskólanum á hverjum degi.“
Sigurður segir að sumarið hafi verið mjög gott. „Þetta hefur verið mjög fínt enda alveg ótrúlega gott veður megnið af sumrinu. Gott veður lífgar alltaf upp á alla verslun því fólk er meira á ferðinni og kaupir oftar inn.“
Dyggir viðskiptavinir Krambúðarinnar
Það er minna um erlenda ferðamenn í Krambúðinni við Hjarðarhaga en í mörgum öðrum Krambúðum. „Við erum fyrir utan miðbæinn og ekki alveg í leiðinni fyrir hinn hefðbundna erlenda túrista. Þetta er fyrst og fremst hverfisverslun með mjög dygga og trausta viðskiptavini sem koma daglega og maður hefur afgreitt lengi. En auðvitað sjáum við ný andlit á hverjum degi; sérstaklega yfir sumarið.“
Þrjár sprengjur yfir daginn
Yfir vetrartímann setja skólarnir svip á verslunina en tveir grunnskólar eru í hverfinu; Hagaskóli og Melaskóli. Hagaskólakrakkarnir hafa alltaf verið duglegir að sækja búðina heim. „Það er hægt að tala um þrjár sprengjur yfir daginn; tíu-frímínútur á morgnana, hádegishléið og svo eftir skóla. Seinni partinn er það svo hin hefðbundna síðdegistraffík í versluninni.“
Hann segir að fjöldinn allur af tilboðum hafi verið hjá þeim í sumar. Sömu tilboðin eru í grunninn í hverjum mánuði í öllum Krambúðum. „En við fáum svigrúm til að meta aðstæður og stilla fram vörum sem við teljum að sé eftirspurn eftir hverju sinni – og það þarf engan veginn að vera það sama í öllum búðum enda kúnnahópurinn oft misjafn.“
Bakað stanslaust frá átta til þrjú
Bakaríið í Krambúðinni er mjög vinsælt og það er bakað stanslaust frá klukkan átta til þrjú á daginn. „Við seljum mikið af bakkelsi og úrvalið er alltaf að aukast. Við fáum allt forbakað og hitum upp hér á staðnum. Eftir sumarfrí í ágúst tókum við til dæmis upp nýjar tegundir af kleinuhringjum og heitum samlokum sem slegið hafa í gegn, enda á fínu verði, matarmiklar og því vinsælar.“
Starf með skóla varð ævistarfið
Eftir árin í Vesturbænum og í Melaskólanum lá leiðin til Hafnarfjarðar þegar hann var tíu ára. „Hafnarfjörður er einstakur bær en ég tel mig samt meiri Eyjamann en Hafnfirðing. Ég fór í Flensborgarskólann og það var einmitt þar sem ég leitaði mér að vinnu með skólanum, eins og gengur, og úr varð starf í 10-11 við Staðarbergið þar sem núna er verslunin Iceland. Þetta reyndist stærra skref en ég hélt því verslunarstörf hafa verið starfsvettvangur minn nær óslitið síðan.“
Sigurður segist ekki hafa verið mikið í íþróttum þótt hann fylgist mjög vel með sumum þeirra. „Ég spriklaði um tíma í marki og hafði gaman af en áttaði mig fljótlega á að ég yrði ekki atvinnumaður í faginu. Ég fylgist hins vegar mjög vel með fótbolta.“
Eyjapeyi og þjóðhátíð
En hvernig var að alast upp í Eyjum til sex ára aldurs? „Það var mjög fínt. Mikið frelsi sem við krakkarnir höfðum og gátum ærslast. Uppátækin voru ekki alltaf vinsæl og ég man enn þegar við vorum skömmuð hressilega fyrir að klifra í fiskinetum,“ segir hann og hlær.
En Eyjapeyi og þjóðhátíð í Eyjum hljóta að fara saman – ekki satt? „Jú, ég fór sem barn með foreldrum mínum á þjóðhátíð yfir daginn og kom við í hvítu tjöldunum. Svo þegar maður hafði aldur til varð þetta meira djamm og heimsóknir til skyldmenna. Þjóðhátíð í Eyjum stendur alltaf fyrir sínu.“
Rigndi niður á Hróarskelduhátíð
Tónlist og tónleikar eru eitt helsta áhugamál Sigurðar. Eftirminnilega tónleika erlendis segir hann hafa verið Hróarskelduhátíðina árin 2006 og 2007. „Það var dúndrandi sól og blíða fyrra árið og svo mætti maður árið eftir nánast á „sandölum og ermalausum bol“, eins og segir í laginu. En þá gerði mestu rigningu í manna minnum. Þarna fuku og rigndi niður tjöld fyrstu nóttina. Þetta var svakalegt en tók á sig ævintýrablæ eftir á, eins og oft vill verða.“
Samskipti við fólk það besta við starfið
En verslunin er komin á fullt skrið eftir annars líflegt sumar við Hjarðarhagann með tilheyrandi skorpum og rabbi við viðskiptavinina. „Hér hef ég kynnst mörgum viðskiptavinum og geri mér far um að spjalla stuttlega við þá í leiðinni þegar þeir koma. Það er nú einu sinni svo að samskiptin við viðskiptavini og starfsfólk eru skemmtilegasti hlutinn af verslunarstarfinu,“ segir Sigurður Ragnarsson.
Ráðstefna Jafnvægisvogarinnar, Jafnrétti er ákvörðun, haldin við hátíðlega athöfn
59 fyrirtæki, 6 sveitarfélög og 11 opinberir aðilar hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA. Á árinu 2022 bættust við 57 nýir þátttakendur í hóp þeirra aðila sem taka þátt í Jafnvægisvoginni.
Frábær árangur á meðal þátttakenda í Jafnvægisvog FKA
Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt í dag stafrænu ráðstefnuna Jafnrétti er ákvörðun, sem streymt var í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV. Þar kynnti Eliza Reid viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í efsta lagi stjórnunar (framkvæmdastjórn). Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2021 voru viðurkenningarhafar 53 talsins en í ár voru þeir samtals 76. Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Pipar\TBWA og Ríkisútvarpið.
Fimmtíu og níu fyrirtæki, sex sveitarfélög og ellefu opinberir aðilar hljóta viðurkenningu
Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til fimmtíu og níu fyrirtækja, sex sveitarfélaga og ellefu opinberra aðila úr hópi þeirra 209 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim þátttakendum sem hafa náð markmiðunum um 23 á milli ára.
„Það hefur verið gaman að fylgjast með Jafnvægisvoginni stækka undanfarin ár og jafnréttismál verða að mikilvægu forgangsmáli hjá okkar þátttakendum. Þátttakendur taka stoltir við viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar og hafa verið duglegir að vekja athygli á jafnréttismálum innan sinna vinnustaða með ýmsum hætti. Því miður eru konur eingöngu 24% framkvæmdastjóra fyrirtækja á Íslandi og hefur hlutfallið eingöngu farið upp um 3% á síðustu tíu árum. Ég er þó bjartsýn á að hlutfallið muni fara hraðar upp á næstu árum með aukinni vitundarvakningu meðal þeirra sem taka ákvörðun um ráðningar“ segir Thelma Kristín Kvaran, verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar.
Jafnrétti hefur bein áhrif á umhverfið
Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2020 var kynntur nýr Jafnréttislundur FKA, sem Skógræktarfélag Reykjavíkur útvegaði Jafnvægisvoginni. Lundurinn er staðsettur við aðalinnganginn í Heiðmörk, Vífilsstaðamegin, og er það fyrsta sem fólk sér þegar það gengur inn í Heiðmörk. Í ár voru gróðursett 76 tré, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa árið 2022. Valdar voru margar tegundir af trjám sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin er að stuðla að. Alls er búið að setja niður 173 tré í Jafnréttislundi á síðustu 3 árum. Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og væri ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti.
Aðgengileg og skýr framsetning upplýsinga
Jafnvægisvogin heldur úti mælaborði sem er ætlað að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti. Þannig er hægt að tryggja aðhald og góða frammistöðu. Í mælaborði Jafnvægisvogarinnar koma fram allar helstu opinberar upplýsingar um stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og innan hins opinbera og þær gerðar aðgengilegar á einfaldan og skýran hátt.
Bættist í hóp fyrirtækja og sveitarfélag sem sjá sér hag í að vinna með Jafnvægisvoginni
Mikill vilji hefur verið hjá fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum að vinna að jafnréttismálum þegar kemur að æðstu stjórnendum. Á árinu undirrituðu alls fjörutíu og sjö fyrirtæki, tvö sveitarfélög og átta opinberir aðilar viljayfirlýsingu um að vinna að markmiðum Jafnvægisvogarinnar og bættust þar með í hóp þeirra sem undirrituðu á síðustu árum. Þátttakendur eru orðnir 209 þátttakendur talsins. Fjölbreyttur mannauður hefur jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækja sem og starfsánægju og frammistöðu í starfi, stuðlar að betri ákvarðanatöku og aukinni verðmætasköpun þar sem nýsköpun og vöxtur verður frekar í hópi fólks með ólíkar skoðanir og bakgrunn. Þátttakendur hafa þannig sýnt í verki að þau vilja virkja allan mannauðinn.
Eftirfarandi fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar í ár:
1. 1912
2. A4
3. AGR Dynamics
4. Akraneskaupstaður
5. Atmonia
6. AwareGO
7. BL
8. Blue Lagoon
9. BYKO
10. Coca-Cola European Partners
11. Creditinfo
12. Dagar
13. Deloitte
14. dk hugbúnaður
15. Einingaverksmiðjan
16. Elkem Ísland
17. ELKO
18. Ernst & Young
19. Fangelsismálastofnun
20. Félagsbústaðir
21. Fjallabyggð
22. Fly Play
23. Framkvæmdasýslan-Ríkiseignir
24. GG verk ehf
25. Guðmundur Arason
26. Hafnarfjarðarbær
27. Hagstofa Íslands
28. Háskóli Íslands
29. Heilbrigðisstofnun Austurlands
30. Heilbrigðisstofnun Suðurlands
31. Hirzlan
32. HS Orka
33. indó sparisjóður
34. Isavia
35. Íslandsbanki
36. Íslandshótel
37. Íslandspóstur
38. Krónan
39. Landgræðslan
40. Landsvirkjun
Einsetjum okkur að vera leiðandi í umhverfismálum á dagvörumarkaði – Krambúðin opnar í Urriðaholti
Krambúðin opnar á laugardaginn í Urriðaholtsstræti 2-4 í Urriðaholti Garðabæ, í húsnæði þar sem verslunin Nær var áður til húsa. Með opnun matvöruverslunarinnar í Urriðholti verða Krambúðirnar orðnar 22 talsins, en þær eru staðsettar víðsvegar um landið.
Garðbæingurinn, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, er framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, en Samkaup rekur alls 60 verslanir víðsvegar um landið m.a. undir merkjum Krambúðarinnar, Nettó og Kjörbúðarinnar.
Urriðaholtið sérstaklega spennandi kostur
Er Gunnur Líf ánægð með að loks sé Samkaup að opna sína fyrstu verslun, Krambúðina í heimabæ hennar, Garðabæ? ,,Það er ótrúlega skemmtilegt að koma með Krambúð inn í Urriðaholtið í Garðabænum. Okkur finnst Urriðaholtið sérstaklega spennandi kostur þar sem hverfið er vistvottað og ætlum við að leggja okkur fram við að taka þátt í þeirri vegferð með því að hafa verslunina eins sjálfbæra og hægt er. Við hlökkum til að taka þátt í að styrkja kjarnann á svæðinu með góðum nágrönnum og fjölbreyttri en persónulegri þjónustu til íbúa.”
Hefur það lengi staðið til að opna verslun í Garðabæ og af hverju varð Urriðaholtið fyrir valinu til að opna Krambúð? ,,Upp kom tækifæri að taka yfir verslunarrými sem var nú þegar til staðar í hverfinu og Urriðaholtið er spennandi hverfi í mikilli uppbyggingu. Við val staðsetninga á Krambúðum viljum við staðsetja okkur í miðjum íbúahverfum og vera valmöguleiki í nærumhverfi íbúanna.”
Krambúðin er verslun sem mætir nútímaáskorunum fólks
Fyrir hvað stendur Krambúðin – hvernig verslun verður þetta? ,,Krambúðin er verslun sem mætir nútímaáskorunum fólks, sem er oft á hlaupum í amstri dagsins og í kapphlaupi við tímann. Þegar ekki fæst tími til að keyra út í búð er Krambúðin til staðar í nágrenninu, Við opnum snemma og lokum seint og með þessum rúma opnunartíma getum við þjónustað okkar viðskiptavini þegar þörfin kallar. Krambúðin er hverfisverslun með persónulega þjónustu, svolítið eins og kaupmaðurinn á horninu, þar sem við leggjum við því áherslu á sanngjart verð á helstu nauðsynjavörum og skjóta þjónustu. “
Eins og þú nefnir þá verður Krambúðin græn verslun, hvað merkir það? ,,Með grænum verslunum er átt við að öll tæki og starfsemi verslunarinnar eru hugsuð út frá sjálfbærni, sem þýðir að ölltæki eru umhverfisvæn og notast við umhverfisvæna kælimiðla, LED-lýsing er í versluninni, allt sorp er flokkað til hins ýtrasta, allir kælar og frystar eru lokaðir, svo eitthvað sé nefnt,” segir hún og bætir við: ,,Allt er þetta gert til þess að draga úr kolefnisspori verslunarinnar sem rímar vel við sjálfbærnistefnu Urriðaholts þar sem unnið er með sjálfbæra þróun, fjölbreytileika og með virðingu fyrir umhverfi og samfélagi.”
Þannig að það á vel við að opna Krambúðina í Urriðaholti þar sem hverfið er vistvottað? ,,Græn Krambúð í Urriðaholti samræmist vel stefnu okkar hjá Samkaupum, eiganda Krambúðarinnar. Við einsetjum okkur að vera leiðandi í umhverfismálum á dagvörumarkaði, t.d. með því að minnka úrgang, draga úr matarsóun og stuðla að enn betri flokkun á sorpi. Lokaðir kælar í verslunum leiða til að mynda til 20% minni orkunotkunar og orka sem kemur frá kælivélum er síðan nýtt til húshitunar þegar kostur er. Markmið Samkaupa er að allar verslanir okkar verði orðnar grænar árið 2030.”
Mörg góð opnunartilboð
Þið eruð að opna á laugardaginn, verða einhver opnunartilboð í boði? ,,Já, það verða mörg góð tilboð um opnunarhelgina í Krambúðinni, bæði sem miða að fjölskyldum í hverfinu til dæmis eru góð tilboð á Ellas barnamat sem og fyrir þá sem langar í eitthvað í kósýkvöldið, snakk og súkkulaði. Þá má nefna að í hverri viku eru ný tilboð í Krambúðinni sem hefur verið góður kostur fyrir viðskiptavini.”
Allir velkomnir í Krambúðina
Urriðaholt er mjög spennandi hverfi með fjölda íbúa og er enn í uppbyggingu – þannig að þið ætlið að sinna íbúum hverfisins vel og bjóðið að sjálfögðu alla Garðbæinga, hvar sem þeir búa í bænum, velkomna í Krambúðina Urriðaholti? ,,Auðvitað, það eru allir velkomnir í Krambúðina,” segir hún brosandi.
Aldrei að vita nema fleiri verslanir bætist við í Garðabæ
En hvað með framhaldið, Samkaup búið að taka fyrsta skrefið inn fyrir bæjarmörk Garðabæjar, stefnið þið á að opna fleiri verslanir í Garðabæ t.d. á Álftanesi þar sem verið að reisa nýjan miðbæjarkjarna þar sem gert er ráð fyrir matvöruverslun? ,,Við erum alltaf til í að skoða þau tækifæri sem felst í opnun nýrra verslana. Samkaup leggur sig fram að þjónusta samfélög út um allt land og því aldrei að vita nema fleiri verslanir bætist við í Garðabæ.”
Sanngjarnt verð á nauðsynjavörum og skjót þjónusta við fólk á hraðferð
Og það verður vel rúmur opnunartími í Krambúðinni Urriðaholti, opið alla virka daga frá kl. 08 til 23:30 á kvöldin og 9 til 23:30 um helgar? ,,Sem hverfisverslun viljum við að Krambúðin geti boðið viðskiptavinum okkar upp á sanngjarnt verð á nauðsynjavörum og skjóta þjónustu við fólk á hraðferð. Opnunar-tíminn í Krambúð er vel rúmur svo að hægt sé að þjónusta viðskiptavini í sínu nærumhverfi á helstu þarfatímum.”
Lukkuhjól og kynning á vildarkerfinu Samkaupa
Og þú hvetur bæjarbúa að koma við á laugardaginn, skoða verslunina og nýta sér frábær opnunartilboð? ,,Já, við hlökkum til að taka á móti bæjarbúum í Krambúðinni á laugardaginn næsta en við munum á opnuninni vera með lukkuhjól og kynningu á vildarkerfinu okkar, þar sem þú hefur tækifæri til að fá enn betri kjör í verslunum Samkaupa, þar á meðal Krambúðinni.”
Opnunartilboðin verða alla helgina og svo áframhaldandi tilboð allan september mánuð. ,,Ég hvet að sjálfsögðu alla bæjarbúa til að mæta og fagna nýrri þjónustu sem styrkir samfélagið,” segir Gunnur Líf að lokum.