Krambúðin efnir til þjóðaratkvæðis um besta nammið. Leikurinn felur í sér kosningu á besta namminu í fjórum algengum aðstæðum í íslenskri nammi-menningu. Það eru sakbitna sælan, sumarbústaðurinn, stefnumótið og bragðarefurinn.
„Við höfum auðvitað öll miklar skoðanir á namminu okkar, en erum ekkert endilega að fá okkur sama nammið eftir því hvað við erum að gera. Við höfum því opnað kosningu þar sem við spyrjum þjóðina hvert uppáhalds nammið þeirra er, eftir ólíkum aðstæðum. Dálítið eins og í „Fantasy football“ þá leggjum við upp fjórar stöður og þjóðin fær tækifæri að stilla upp besta liðinu,“ segir Ásdís Ragna Valdimarsdóttir, markaðstjóri Krambúðarinnar.
Opinber kosning á besta namminu í hverri stöðu fer fram núna á vef Krambúðarinnar og verða niðurstöður kynntar þann 8. september.
Í tilkynningu frá Krambúðinni um keppnina segir einnig að frá því að verslunin opnaði nammibar í verslunum aftur hafi þau selt 38 tonn af sælgæti úr nammibarnum.
Ný norræn næringarviðmið voru gefin út nýlega. Í þeim er mælt með því að takmarka neyslu matvara sem innihalda mikið af sykri, salti og mettaðri fitu eins og sælgæti, kökum og snakki.