Einsetjum okkur að vera leiðandi í umhverfismálum á dagvörumarkaði – Krambúðin opnar í Urriðaholti
Krambúðin opnar á laugardaginn í Urriðaholtsstræti 2-4 í Urriðaholti Garðabæ, í húsnæði þar sem verslunin Nær var áður til húsa. Með opnun matvöruverslunarinnar í Urriðholti verða Krambúðirnar orðnar 22 talsins, en þær eru staðsettar víðsvegar um landið.
Garðbæingurinn, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, er framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, en Samkaup rekur alls 60 verslanir víðsvegar um landið m.a. undir merkjum Krambúðarinnar, Nettó og Kjörbúðarinnar.
Urriðaholtið sérstaklega spennandi kostur
Er Gunnur Líf ánægð með að loks sé Samkaup að opna sína fyrstu verslun, Krambúðina í heimabæ hennar, Garðabæ? ,,Það er ótrúlega skemmtilegt að koma með Krambúð inn í Urriðaholtið í Garðabænum. Okkur finnst Urriðaholtið sérstaklega spennandi kostur þar sem hverfið er vistvottað og ætlum við að leggja okkur fram við að taka þátt í þeirri vegferð með því að hafa verslunina eins sjálfbæra og hægt er. Við hlökkum til að taka þátt í að styrkja kjarnann á svæðinu með góðum nágrönnum og fjölbreyttri en persónulegri þjónustu til íbúa.”
Hefur það lengi staðið til að opna verslun í Garðabæ og af hverju varð Urriðaholtið fyrir valinu til að opna Krambúð? ,,Upp kom tækifæri að taka yfir verslunarrými sem var nú þegar til staðar í hverfinu og Urriðaholtið er spennandi hverfi í mikilli uppbyggingu. Við val staðsetninga á Krambúðum viljum við staðsetja okkur í miðjum íbúahverfum og vera valmöguleiki í nærumhverfi íbúanna.”
Krambúðin er verslun sem mætir nútímaáskorunum fólks
Fyrir hvað stendur Krambúðin – hvernig verslun verður þetta? ,,Krambúðin er verslun sem mætir nútímaáskorunum fólks, sem er oft á hlaupum í amstri dagsins og í kapphlaupi við tímann. Þegar ekki fæst tími til að keyra út í búð er Krambúðin til staðar í nágrenninu, Við opnum snemma og lokum seint og með þessum rúma opnunartíma getum við þjónustað okkar viðskiptavini þegar þörfin kallar. Krambúðin er hverfisverslun með persónulega þjónustu, svolítið eins og kaupmaðurinn á horninu, þar sem við leggjum við því áherslu á sanngjart verð á helstu nauðsynjavörum og skjóta þjónustu. “
Eins og þú nefnir þá verður Krambúðin græn verslun, hvað merkir það? ,,Með grænum verslunum er átt við að öll tæki og starfsemi verslunarinnar eru hugsuð út frá sjálfbærni, sem þýðir að ölltæki eru umhverfisvæn og notast við umhverfisvæna kælimiðla, LED-lýsing er í versluninni, allt sorp er flokkað til hins ýtrasta, allir kælar og frystar eru lokaðir, svo eitthvað sé nefnt,” segir hún og bætir við: ,,Allt er þetta gert til þess að draga úr kolefnisspori verslunarinnar sem rímar vel við sjálfbærnistefnu Urriðaholts þar sem unnið er með sjálfbæra þróun, fjölbreytileika og með virðingu fyrir umhverfi og samfélagi.”
Þannig að það á vel við að opna Krambúðina í Urriðaholti þar sem hverfið er vistvottað? ,,Græn Krambúð í Urriðaholti samræmist vel stefnu okkar hjá Samkaupum, eiganda Krambúðarinnar. Við einsetjum okkur að vera leiðandi í umhverfismálum á dagvörumarkaði, t.d. með því að minnka úrgang, draga úr matarsóun og stuðla að enn betri flokkun á sorpi. Lokaðir kælar í verslunum leiða til að mynda til 20% minni orkunotkunar og orka sem kemur frá kælivélum er síðan nýtt til húshitunar þegar kostur er. Markmið Samkaupa er að allar verslanir okkar verði orðnar grænar árið 2030.”
Mörg góð opnunartilboð
Þið eruð að opna á laugardaginn, verða einhver opnunartilboð í boði? ,,Já, það verða mörg góð tilboð um opnunarhelgina í Krambúðinni, bæði sem miða að fjölskyldum í hverfinu til dæmis eru góð tilboð á Ellas barnamat sem og fyrir þá sem langar í eitthvað í kósýkvöldið, snakk og súkkulaði. Þá má nefna að í hverri viku eru ný tilboð í Krambúðinni sem hefur verið góður kostur fyrir viðskiptavini.”
Allir velkomnir í Krambúðina
Urriðaholt er mjög spennandi hverfi með fjölda íbúa og er enn í uppbyggingu – þannig að þið ætlið að sinna íbúum hverfisins vel og bjóðið að sjálfögðu alla Garðbæinga, hvar sem þeir búa í bænum, velkomna í Krambúðina Urriðaholti? ,,Auðvitað, það eru allir velkomnir í Krambúðina,” segir hún brosandi.
Aldrei að vita nema fleiri verslanir bætist við í Garðabæ
En hvað með framhaldið, Samkaup búið að taka fyrsta skrefið inn fyrir bæjarmörk Garðabæjar, stefnið þið á að opna fleiri verslanir í Garðabæ t.d. á Álftanesi þar sem verið að reisa nýjan miðbæjarkjarna þar sem gert er ráð fyrir matvöruverslun? ,,Við erum alltaf til í að skoða þau tækifæri sem felst í opnun nýrra verslana. Samkaup leggur sig fram að þjónusta samfélög út um allt land og því aldrei að vita nema fleiri verslanir bætist við í Garðabæ.”
Sanngjarnt verð á nauðsynjavörum og skjót þjónusta við fólk á hraðferð
Og það verður vel rúmur opnunartími í Krambúðinni Urriðaholti, opið alla virka daga frá kl. 08 til 23:30 á kvöldin og 9 til 23:30 um helgar? ,,Sem hverfisverslun viljum við að Krambúðin geti boðið viðskiptavinum okkar upp á sanngjarnt verð á nauðsynjavörum og skjóta þjónustu við fólk á hraðferð. Opnunar-tíminn í Krambúð er vel rúmur svo að hægt sé að þjónusta viðskiptavini í sínu nærumhverfi á helstu þarfatímum.”
Lukkuhjól og kynning á vildarkerfinu Samkaupa
Og þú hvetur bæjarbúa að koma við á laugardaginn, skoða verslunina og nýta sér frábær opnunartilboð? ,,Já, við hlökkum til að taka á móti bæjarbúum í Krambúðinni á laugardaginn næsta en við munum á opnuninni vera með lukkuhjól og kynningu á vildarkerfinu okkar, þar sem þú hefur tækifæri til að fá enn betri kjör í verslunum Samkaupa, þar á meðal Krambúðinni.”
Opnunartilboðin verða alla helgina og svo áframhaldandi tilboð allan september mánuð. ,,Ég hvet að sjálfsögðu alla bæjarbúa til að mæta og fagna nýrri þjónustu sem styrkir samfélagið,” segir Gunnur Líf að lokum.